Salsa Brauðrúlla

Ég sótti innblástur fyrir þessum brauðrúllurétt frá Maríu hjá Paz.is. Fékk leyfi frá Maríu til þess að "stela" hugmyndinni og gera þessa uppskrift Lágkolvetna. Hér er linkur á upprunalegu uppskriftina hennar fyrir áhugasama.

Innihald:

Rúllutertubrauð:

 • 6 egg
 • 200gr Philadelphia Rjómaostur með graslauk og púrrulauk
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 2 msk Psyllium Husk duft
 • 1 msk Fiesta de Mexico frá Pottagöldrum
 • 1 msk Tex Mex krydd
 • Nokkur Himalayan saltkorn

Hakkblanda:

 • 300gr Nautahakk
 • 70gr rauð paprika, smátt skorin
 • 2 krukkur Hot Taco sósa frá Santa Maria
 • 1 msk Tex Mex krydd
 • 1 tsk Paprikukrydd frá Pottagöldrum
 • 2 tsk Hvítlauksduft frá Pottagöldrum
 • 1 tsk Cumin frá Pottagöldrum
 • Eðal salt og Svartur pipar frá Pottagöldrum eftir smekk

Inní og ofan á brauðið:

 • 220gr rjómaostur
 • 1/2 mozzarella kúla
 • 1/2 dós 18% sýrður rjómi
 • 150gr rifinn ostur
 • Smá Paprikukrydd frá Pottagöldrum
 • Lúka af Tortilla flögum (má sleppa)

Aðferð:

Aðskiljið eggin, eggjahvítur í eina skál og eggjarauður í aðra. Passið að það komi ekki nein rauða í hvíturnar.

Stífþeytið eggjahvíturnar þar til það byrja að myndast toppar, það á að vera hægt að hvolfa skálinni án þess að blandan fari úr.

Setjið rjómaostinn saman við eggjarauðurnar og hrærið mjög vel með písk þar til það er orðið kekklaust. Setjið krydd og lyftiduft saman við,

Hrærið og blandið huskinu við síðast. Passið vel að það komi ekki kekkir.

Best er að blanda eggjarauðublönduna strax saman við stífþeyttu eggjahvíturnar, hrærið varlega saman og reynið að halda loftinu sem mest í deiginu.

Dreifið deiginu jafnt á ofnplötu klædda með smjörpappír. Bakið við 200 gráður með blæstri í 25 mínútur.

Á meðan brauðið er í ofninum er hakkblandan undirbúin.

Steikið og kryddið hakkið. Skerið paprikuna mjög smátt og steikið með hakkinu. Þegar paprikan er orðin mjúk og hakkið steikt í gegn er tacosósunni hellt saman við og látið malla í 10 mínútur.

Takið brauðið úr ofninum og leyfið því að kólna örlítið.

Hitið rjómaostinn í örbylgju í sirka 20-30 sekúndur, rétt aðeins til að mýkja hann.

Smyrjið rjómaostinum jafnt yfir allt brauðið. Dreifið næst hakkblöndunni jafnt yfir rjómaostinn. Skerið 1/2 mozzarella kúlu í sneiðar og dreifið inn í miðjuna á brauðinu. Rúllið næst varlega brauðinu upp þannig að endi á brauðinu snýr niður. 

   

Smyrjið sýrðum rjóma jafnt yfir rúlluna og dreifið rifna ostinum yfir, stráið örlitlu paprikukryddi yfir ostinn og myljið lúku af tortillaflögum í lokinn.

Hitið rúlluna við 190 gráður á blæstri í 25-30 mínútur.

Philadelphia rjómaosturinn og Mexican kryddið frá Mccormick fæst m.a. í Nettó.