LKL Milljón Dollara Spaghetti

Það eru nokkrir sem kannast við uppskriftina Milljón dollara spaghetti frá Ljúfmeti.is

Áður en ég byrjaði á lágkolvetna mataræði þá eldaði ég það óspart með venjulegu spaghettíi. Þetta er aðeins öðruvísi uppskrift, mín lágkolvetna útgáfa af Milljón dollara spaghetti.

Ég notast við Edamame spaghetti frá Slendier sem fæst hjá Systrum og Mökum.

Innihald:

 • 700gr nautahakk
 • 80gr Skarlottulaukur
 • 100gr rauð paprika
 • 600gr hakkaðir tómatar í dós (passa sykur)
 • 300gr Hreinn rjómaostur
 • 120gr 18% sýrður rjômi
 • 200gr kotasæla
 • 110gr smjör
 • 230gr Slendier Edamame spaghetti (hægt að nota annað)
 • 200gr rifinn ostur
 • 40gr parmesan ostur
 • 3 msk Pizzakrydd frá Pottagöldrum
 • 2 msk Paprikukrydd frá Pottagöldrum
 • 2 msk Hvítlauksduft frá Pottagöldrum 
 • 2 msk Töfrakrydd frá Pottagöldrum 
 • 1/2 tsk Xanthan Gum
 • 1 Nautakraftur
 • Eðal salt og Svartur pipar frá Pottagöldrum eftir smekk
 • Avocadoolía til steikingar

Aðferð:

Skerið laukinn og paprikuna mjög smátt og steikið uppúr olíu þar til það er orðið mjúkt. Sjóðið spaghettíið skv leiðbeiningum, hellið örlítið af olíu ofan í vatnið og saltið. Myljið 1/2 nautakraft út í vatnið og leyfið suðunni að koma upp.

Steikið næst hakkið með lauknum og paprikunni þar til það er orðið steikt í gegn. Kryddið hakkblönduna og hrærið mjög vel.

Hellið næst hökkuðu tómötunum saman við hakkið og hrærið vel. Myljið 1/2 nautakraft útí kjötsósuna ásamt 1/2 tsk Xanthan Gum til þess að þykkja örlítið.

Leyfið kjötsósunni að malla í 10-15 mínútur og smakkið til með kryddum eftir smekk.

Sigtið allt vatn frá spaghettíinu og leyfið að standa örlítið.

Setjið rjómaost, kotasælu og sýrðan rjóma saman í skál og hitið í 20-30 sec í örbylgju rétt til að mýkja blönduna.

 

Skiptið smjörinu upp í tvennt, setjið helming af smjörinu í botninn á eldföstuformi, dreifið helming af spaghettí yfir smjörið, dreifa helming af rjómaostablöndu yfir spaghettíið og endurtakið.

Hellið síðast kjötsósu yfir og dreifið vel úr.

Bakið við 200 gráður með blæstri í 15 mínútur, takið út, dreifið rifna ostinum og parmesan yfir og hitið í aðrar 15 mín.

Mjög gott að hafa Hvítlauksbrauð með!

Þessi uppskrift eru 8 skammtar og notaði ég stórt eldfast form. Ekkert mál að helminga uppskriftina og notast við minna eldfast form.