Brauðréttur

 Innihald:

Oopsie brauð:

 • 4 egg
 • 120gr Camembert smurostur
 • 1 tsk Vínsteins lyftiduft
 • 1/2 msk Psyllium Husk powder
 • klípa af salti

Ostablanda:

 • 130gr camembert smurostur
 • 1 hringlóttur villisveppaostur
 • 2 bréf léttreykt kjúklingaskinka
 • 1/2 græn paprika
 • 1 dós grænn aspas 
 • 100ml rjómi
 • 1/4 sveppakraftur
 • Rifinn ostur eftir smekk (ofan á réttinn)
 • Töfrakrydd og Paprikukrydd frá Pottagöldrum stráð létt yfir ostinn eftir smekk

 Aðferð:

Aðskiljið eggin og stífþeytið eggjahvíturnar ásamt lyftidufti alveg þar til það koma toppar og að það sé hægt að hvolfa skálinni án þess að blandan haggist. 

Á meðan eggjahvíturnar eru þeyttar blandið saman eggjarauðum, salti og Camembert smurostinum vel saman þar til það er alveg blandað saman. Þegar eggjahvíturnar eru stífþeyttar og tilbúnar, blanda þá huskinu vel saman við eggjarauðurnar og blandið svo eggjarauðublöndunni varlega saman við eggjahvíturnar. Reynið að halda eins miklu lofti í blöndunni og hægt er. 

Dreifið úr deiginu jafnt á ofnplötu klædda smjörpappír og bakið 150 gráður í 25-30 mínútur eða þar til þau eru orðin gyllt. 

Á meðan brauðin bakast er ostablandan gerð. Hellið safa af aspasnum í pott og hitið upp. Setjið Camembert smurostinn og brytjaðan/raspaðann villisveppaostinn út í aspas safan og leysið alveg upp á 3/4 hita. Jafnið úr sósunni með rjómanum. 

Skerið kjúklingaskinku og papriku niður í smáa bita og setjið út í ostasósuna ásamt aspasnum. Hrærið mjög vel í blöndunni þar til allt er vel blandað saman. 

Þegar brauðið hefur kólnað er helmingurinn rifinn niður í botninn á hringlaga eldföstu formi, ekki of stóru, og helmingurinn af ostablöndunni hellt yfir og hrært vel í og þjappað saman. Rífið niður restina af brauðinu og hellið restinni af ostablöndunni yfir og dreifið vel úr þar til það hefur blandast vel við brauðið. Toppið með rifnum osti eftir smekk og hitið í ofni á 200 gráðum í 20 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gylltur.

 Frábær og klassískur réttur í allar veislur!